Hjörleifshöfði ásamt stórum hluta af Mýrdalssandi hefur verið auglýstur til sölu. Fjárfestar tengdir ferðaþjónustu hafa einkum sýnt jörðinni áhuga, að sögn fasteignasala.
Óskað er eftir tilboðum en verðhugmyndir seljenda eru á bilinu hálfur til einn milljarður króna.
Það er Morgunblaðið sem greinir frá þessu.
Eyðijörðin Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi er kennd við Höfðann sem er gróin eyja á sandinum. Hafursey tilheyrir einnig jörðinni ásamt söndum, fjörum, uppgræðslusvæði við hringveginn og námusvæði. Jörðin í heild er talin 11.500 hektarar.
Hjörleifshöfði er í einkaeigu og ekki þjóðlenda. Eigendurnir eru Þórir N. Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vík, og systur hans Áslaug og Halla. Þau fengu jörðina í arf en forfeður þeirra bjuggu í Hjörleifshöfða. Systkinin buðu ríkinu að kaupa eignina en viðræður sem staðið hafa í átta ár hafa ekki borið árangur og ákváðu eigendurnir því að setja jörðina í opið söluferli.
Ólafur Björnsson, hrl. hjá Lögmönnum Suðurlandi, segir að þeir fjárfestar sem sýnt hafi áhuga á kaupunum hugsi til ferðaþjónustu, hótelbyggingar og útivistar.