Hlaðbær-Colas hf í Hafnarfirði átti lægsta tilboðið í styrkingu og malbikun á 3,1 km kafla á Laugarvatnsvegi, sem vinna á í sumar.
Tilboð Hlaðbæjar-Colas hljóðaði upp á tæpar 160 milljónir króna og var 4,9% yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 152,5 milljónir króna.
Önnur tilboð sem bárust voru frá Suðurtaki 171,8 milljónir króna, vörubílstjórafélaginu Mjölni 183 milljónir og Aðalleið bauð 196,9 milljónir króna.
Um er að ræða styrkingu og malbikun á Laugarvatnsvegi á 3,1 km kafla frá gatnamótum Reykjavegar að bænum Brekku.
Verkinu á að vera lokið þann 1. september næstkomandi.