Veisluþjónusta Suðurlands á Selfossi hefur skipt um eigendur en Bjartmar Pálmason hefur keypt reksturinn af Ole Olesen, matreiðslumeistara.
„Ég mun halda áfram með það sem Ole er búinn að vera að gera, það er að vera áfram með matarbakkana í hádeginu, og allskonar veislur, brúðkaup, fermingar, jólahlaðborð, árshátíðir, smárétti, grillveislur og margt fleira. Ég hlakka bara til að þjónusta viðskiptavini á Suðurlandi og víðar í komandi framtíð,“ sagði Bjartmar í samtali við sunnlenska.is.
Ole stofnaði Veisluþjónustu Suðurlands í september 1999 og hefur hann sinnt viðskiptavinum á Suðurlandi alla tíð síðan með fjölbreytilegar veislur. Ole vill þakka öllum sínum viðskiptavinum fyrir góð viðskipti og óskar Bjartmari góðs gengis í rekstrinum.
Bjartmar, sem er Bolvíkingur og ættaður úr Þykkvabænum, er nýfluttur með fjölskylduna á Selfoss frá Reykjavík þar sem hann hefur unnið í veitingageiranum undanfarin fimmtán ár.