Hlaup hafið í Skaftá

Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast síðan kl. 16 í gær, miðvikudaginn 7. september. Í viðvörun frá Almannavörnum segir að sumarleysing á jökli eða rigningar orsaki ekki aukið rennsli og þýðir það að hlaup sé hafið í Skaftá.

Rennslið við Sveinstind er nú um 270 rúmmetrar á sekúndu eða heldur meira en mesta rennsli sem áin náði í jöklaleysingu í sumar. Hlaupið kemur líklegast úr Vestari Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. Hlaupið hefur náð niður í byggð og fylgir því mikil brennisteinslykt og sjónarvottar hafa tilkynnt um að áin sé vatnsmikil og að hún sé dökk á lit.

Vegna hins stutta tíma sem liðið hefur milli hlaupa er ekki talið að hætta sé á ferðum.

Upptök hlaupsins fást ekki staðfest nema með athugunum úr flugi yfir katlana.

Hlaupið getur staðið yfir næstu daga, en hámarksrennsli við Sveinstind verður líklegast náð í dag. Aftur skal bent á að hér er um minniháttar jökulhlaup að ræða og mjög ólíklegt er að það valdi tjóni í Skaftárdal.

Möguleg vá

• Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls og Tungnárjökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Þegar styrkur brennisteinsvetnisins fer yfir hættumörk er fólk hætt að finna lyktina.

• Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum.

Fyrri greinÁrborg og Hamar úr leik
Næsta greinHandboltavertíðin hefst í kvöld