GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka og rennsli úr lóni við jökulbotn er hafið. Rennsli úr katlinum hófst líklega snemma á þriðjudag.
Rennslið úr katlinum er vaxandi og vænta má jökulhlaups í Skaftá á næstu dögum.
Ef atburðarásin verður með sama hætti og í jökulhlaupinu í október 2015 gæti hlaupið brotist undan jökuljaðrinum aðfaranótt næstkomandi laugardags 4. ágúst og rennslið nærri jökuljaðri náð hámarki snemma á sunnudag.
Hlaupið verður um hálfum sólarhring síðar á láglendi við hringveg 1. Ekki er þó unnt að útiloka að hlaupið verði fyrr á ferðinni nú og fylgist náttúruvárvakt Veðurstofunnar með framvindu hlaupsins.
Möguleg vá
Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá::
- Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
- Dæmi eru um að hlaup frá katlinum hafi komið að hluta til undan Síðujökli, sem mundi þá valda hlaupi í Hverfisfljóti og þá koma fram við brúna á þjóðvegi 1. Fylgst er vel með Hverfisfljóti þótt ekki sé talið líklegt að það gerist.
- Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
- Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.
GPS measurements from the eastern Skaftá cauldron on Vatnajökull show that the ice-shelf above the lake is lowering. This is an early sign of the onset of an outburst flood (jökulhlaup), which will affect the river Skaftá in southern Iceland. The jökulhlaup is expected to reach the edge of Vatnajökull late on Friday 3 August, with the peak of the flood possible during the early hours of Sunday 5 August.
Travellers are strongly advised to avoid travel in Skaftárdalur during the coming days. In addition to flooding along Skaftá, gas pollution from the floodwater could affect the region, particularly at the edge of Skaftárjökull.