Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo sólarhringa og vatnshæð árinnar við Sveinstind aukist síðustu klukkustundir. Einnig hafa borist tilkynningar um brennisteinslykt í nágrenni Skaftár og Hverfisfljóts.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Ekki er talið að leysing á jökli eða úrkoma valdi þessum breytingum heldur benda þessar athuganir til þess að Skaftárhlaup sé hafið. Gögn gefa til kynna að upptök hlaupsins séu í Vestari-Skaftárkatli. Síðast hljóp úr katlinum í september 2019 en hlaupin úr vestari katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.
Rennsli við Sveinstind var um 290 m3/s kl. 12 en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s. Þó er ekki útilokað að vatn hlaupi úr Eystri-Skaftárkatli í kjölfarið líkt og gerðist í ágúst 2018.
Samráðsfundur verður haldinn á Veðurstofunni kl. 14 þar sem farið verður nánar yfir þróun mála.