Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku og er það talsvert minni fjöldi en í vikunum þar á undan. Átta þeirra voru erlendir ferðamenn.
Þá voru skráningarnúmer tekin af sex ökutækjum vegna þess að þau reyndust ótryggð í umferðinni. Í einu tilfelli reyndist ökumaður ótryggðs ökutækis ölvaður.
Fjórir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis í liðinni viku. Einn þeirra, hlaupari mikill, reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum um götur Selfoss og er hann grunaður um að hafa einnig verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.
Ökumaður fólksbifreiðar sem ók á víravegrið í Kömbum síðastliðinn mánudag er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Ekki urðu slys á fólki við áreksturinn en hinsvegar þurfti dráttarbifreið til að flytja ökutækið af vettvangi. Tveir aðrir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sinum undir áhrifum fíkniefna í vikunni.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.