Samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur rennsli Skaftár við Sveinstind verið stöðugt síðan um hádegi í gær þegar hlaupið náði hámarki þar. Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í september 2012.
Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni athugun úr flugi yfir katlana en nú er skýjað yfir jöklinum og ekkert skyggni.
Rennslið við Sveinstind er líklega ofmetið vegna íss í árfarveginum en rennslið við Skaftárdal er um 200 m³/s. Hlaupið náði niður í byggð síðdegis í gær og nær líklega hámarki í dag. Stærsti hluti hlaupsins fer í Eldvatn og þaðan í Kúðafljót en minni hlutinn fer í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur.
Megn brennisteinslykt er af ánni en magn brennsisteinsvetnis getur getur verið hættulegt fólki nærri upptökum hlaupsins.
Eins og staðan er núna er þetta lítið hlaup og rennslið eins og oft er á sumrin og hlaupið ætti ekki að valda neinu tjóni í byggð. Náið er fylgst með framvindu hlaupsins.