Hlaupið hefur náð hámarki

Jökulhlaup í Skálm. sunnlenska.is/Marinó Fannar Garðarsson

Mælingar sýna að verulega hefur dregið úr rennslinu í Skálm og því hefur hlaupið úr Mýrdalsjökli hafi náð hámarki þar. Samkvæmt allra fyrsta mati er talið að stærðargráðan á hlaupinu hafi verið um 1.000 m3/s við þjóðveginn.

Engin merki sjást um að hlaupvatn hafi borist í Múlakvísl eða aðrar ár undan Mýrdalsjökli. Nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma en Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast náið með óróa og jarðskjálftavirkni undir jöklinum.

Eldgos ekki orsök jökulhlaupsins í dag
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að engin merki sjást í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi orsakað jökulhlaupið sem varð í dag. Þó svo að um óvenju stórt hlaup hafi verið að ræða, er hlaupið vegna jarðhita í kötlum jökulsins. Bræðsluvatn safnast fyrir sem síðar hleypur fram undan jöklinum. GPS mælir sem staðsettur á Austmannsbungu sýnir skýr merki um að breytingar sem mældust í öskjunni að um venjubundið jökulhlaup er að ræða.

Landhelgisgæslan fór í eftirlitsflug með vísindamönnum frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands nú síðdegis til að kanna aðstæður. Í því flugi var staðfest að hlaupvatn kom einungis undan Sandfellsjökli og barst þaðan í farveg ánnar Skálm. Ekki var skyggni yfir Mýrdalsjökli til þess að staðfesta úr hvaða kötlum hlaupvatnið kom.

Fyrri greinRisastig hjá Selfyssingum – Ægir tapaði sjötta leiknum í röð
Næsta greinGul viðvörun vegna mikillar rigningar