
Lögreglan fékk tilkynningu síðdegis í gær um bíl sem æki ógætilega og rásandi um götur Selfossbæjar.
Lögreglumenn fundu bílinn á bílastæði N1 við Austurveg og hugðist ræða við ökumanninn en hann steig þá á bensíngjöfina og ók á ofsahraða suður Rauðholt og niður Engjaveginn. Samkvæmt lýsingum vitna sem sunnlenska.is ræddi við var bíllinn nálægt 100 km/klst hraða en hámarkshraði í þessum götum er 30 km/klst.
Á gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu ók maðurinn yfir á rauðu ljósi og lenti á bíl sem ók eftir Tryggvagötunni. Áreksturinn var harður en maðurinn ók þrátt fyrir það áfram niður Engjaveginn en komst ekki lengra en að gatnamótum Kirkjuvegar, um 250 metrum neðar í götunni.
Þar stökk ökumaðurinn úr bifreiðinni og hljóp á brott en vegfarendur sáu til hans og gátu vísað lögreglunni á manninn. Lögreglumenn hlupu manninn uppi og handtóku hann á skólalóð Vallaskóla.
Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns, var maðurinn vistaður í fangklefa í nótt en verður yfirheyrður síðar í dag. Hann er talinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Einn var í hinum bílnum sem lenti í árekstrinum og var ökumaður hans fluttur til læknisskoðunar á HSU á Selfossi en er ekki talinn alvarlega slasaður.
