Ökumaður bifreiðar sem valt sex metra ofan í gil við Miðá í Skaftártungu í dag hlaut mikla höfuðáverka og var fluttur með hraði til Reykjavíkur.
Tveir voru í bílnum en farþegann sakaði ekki. Þarna voru á ferð ítalskir ferðamenn í bílaleigubíl. Lausamöl er á veginum en vegfarendur sem urðu vitni að slysinu sögðu að ekki hafi verið um hraðakstur að ræða.
Þak bifreiðarinnar féll saman og var bílstjórinn með mikla og sýnilega áverka á höfði. Vegfarendur veittu fyrstu hjálp á slysstað og hringdu eftir aðstoð og segir lögregla að aðstoð þeirra hafi verið ómetanleg. Fólkið eigi heiður skilinn fyrir skjót og góð viðbrögð.