Hlýjar gjafir til Árbliks og Vinaminnis

Frá afhendingu gjafanna. Ljósmynd/Aðsend

Lionsklúbburinn Embla færði í síðustu viku dagdvölinni Árbliki á Selfossi og dagdvölinni Vinaminni á Selfossi góðar gjafir.

Sigurbjörg Hermundsdóttir afhenti þeim Bylgju Dögg Kristjánsdóttur og Fanneyju Gunnarsdóttur tvo Terabath vaxpotta og fjóra Beurer fótverma með nuddi, sem munu deilast á Árblik og Vinaminni en báðir staðirnir eru dagdvöl fyrir fólk með minnissjúkdóma.

Sigurbjörg sagði við afhendinguna að nú þyrfti engum að vera kalt á höndum eða fótum. Bylgja Dögg þakkaði fyrir gjafirnar og starfsfólk og heimilisfólk klöppuðu fyrir hlýhug Lionskvenna.

Að afhendingunni lokinnni áttu Emblur góða stund með fólkinu á Árbliki og nutu þess að tala við það og sjá hversu flott starf er unnið á þessum stöðum. „Á þessum fallega degi voru allir svo glaðir og hlýtt í hjarta,“ segir í tilkynningu frá styrktarsjóði Lionsklúbbsins Emblu.

Fyrri greinStarf Orkídeu framlengt um þrjú ár
Næsta greinÞórir Evrópumeistari í sjötta sinn