Farið var inn í hesthús á Eyrarbakka síðastliðinn föstudag og þaðan stolið hnakki, reiðtygjum og fleiru.
Meðal þess sem hvarf úr húsinu var ársgamall svartur Topreiter hnakkur, stangarmél, nokkur hringmél, beisli, taumar og Hitatchi Koki rafhlöðuborvél.
Eigandinn átti leið að hesthúsinu um kl. 16:30 þennan dag. Hann mætti litlum hvítum bíl en tók ekki eftir skráningarnúmeri né áttaði sig á tegund bílsins. Í bílnum voru tveir karlmenn, annar var dökkur yfirlitum í rauðri peysu en ekki er lýsing á hinum. Grunur er um að þeir sem voru á hvíta bílnum tengist þjófnaðinum.
Lögreglan á Selfossi biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.