Um helgina höfðu lögreglumenn á Selfossi tvívegis afskipti af einstaklingum á Selfossi sem voru að veifa hnífum. Annars vegar á skemmtistað og hins vegar á almannafæri.
Í fyrra skiptið var óskað eftir lögreglu á skemmtistað vegna manns í annarlegu ástandi inni á dansgólfi sem sveiflaði hníf fyrir augum gesta. Maðurinn reyndist undir áhrifum fíkniefna. Eftir handtöku fannst á honum hnífurinn sem hann hafði verið að veifa. Maðurinn var færður í fangageymslu.
Á föstudagskvöld sáu lögreglumenn á eftirlitsferð konu á gangi eftir miðju Langholti. Þegar þeir komu að henni otaði hún hníf að lögreglubifreiðinni og hrópaði ókvæðisorð að lögreglumönnunum. Þegar þeir ætluðu að ræða við konuna hljóp hún í burtu en náðist fljótt og var handtekin. Hún var þá ekki með hnífinn á sér, en hann fannst skammt frá.
Í dagbók lögreglu segir að æ oftar gerist það að lögreglumenn þurfi að glíma við einstaklinga sem ganga með hnífa á sér. Lögreglan hefur lagt hald á hnífa sem eru bannaðir samkvæmtlögum og svo hnífa sem eiga heima í eldhúsinu og við grillið.