Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands hlaut á dögunum nýsköpunarverðlaun Heilsulindarsamtaka Evrópu (ESPA) vegna þjónustu sem veitt er á Heilsustofnun í Hveragerði.
Verðlaunin voru veitt fyrir góðan árangur í þróun námskeiða og meðferða í öldrunarendurhæfingu, gjörhygli/núvitund sem nýtt er í verkjameðferð, og streitumeðferð.
Verðlaunin eru veitt heilsulindum fyrir nýsköpun sem skilar sér í betri upplifun og árangursríkara starfi á öllum sviðum heilbrigðistengdar þjónustu, hvort sem um er að ræða meðferðir, rekstur eða markaðssetningu. Voru verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í Sopot í Póllandi þar sem Margrét Grímsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á HNLFÍ tók við þeim.
Hún segir það mikla viðurkenningu að vera valin úr stórum hópi og starfið við stofnunina veki athygli ytra, ekki síst fyrir þær sakir að þetta er í annað sinn sem stofnunin fær verðlaun frá umræddum samtökum. „Vonandi verður þetta til þess að við eflum stöðu okkar sem fyrirmynd á alþjóða heilbrigðisvettvangi,“ segir hún.