Náttúruverndarstofnun tók til starfa þann 1. janúar síðastliðinn en höfuðstöðvar hennar, sem staðsettar eru á Austurvegi 4 á Hvolsvelli, voru opnaðar formlega síðastliðinn fimmtudag.
Við opnunina var ásýnd og merki stofnunarinnar kynnt, en þeim er ætlað að skapa ímynd og sjónrænt einkenni fyrir stofnunina þar sem virðing fyrir náttúrunni er höfð að leiðarljósi.
„Ný Náttúruverndarstofnun er vel til þess fallin að auka skilvirkni og samræmingu í náttúruvernd á landsvísu og tryggja samræmdari og þar með betri stjórn á friðlýstum svæðum,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ávarpi sínu í félagsheimilinu Hvolnum af þessu tilefni.
Náttúruverndarstofnun varð til við sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, sem og vernd villtra fugla og spendýra. Þá sinnir stofnunin eftirliti og samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar.