Hólmfríður safnaði 1,8 milljónum króna

Treyja sem Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, bauð upp til styrktar Kolfinnu Rán var slegin á tæpar 1,8 milljónir króna þegar uppboðinu lauk í dag.

Treyjunni klæddist Hólmfríður í sínum 100. landsleik fyrir skömmu en ágóðinn af uppboðinu rennur til Kolfinnu Ránar, dóttur Olgu Færseth og Pálínu Guðrúnar Bragadóttur, fyrrum liðsfélaga Hólmfríðar.

Á Instagramsíðu sinni greinir Hólmfríður frá því að hæsta boðið hafi komið frá 160 einstaklingum og félagasamtökum; samferðafólki Olgu og Pálu, samstarfsfélögum úr Kviku og MP banka með eina stóra færslu, vinum úr íþróttunum, bæði fótbolta og körfubolta og frá fjölskyldum þeirra beggja og vinum og félögum Hólmfríðar frá Noregi. Einnig lögðu sjö fyrirtæki til fé í söfnunina.

„Við sem stóðum að baki þessari söfnun, viljum þakka öllum þeim sem komu að söfnuninni og lögðu sitt af mörkum. Takmarkið náðist og það er alveg ljóst að þegar við stöndum saman, allir sem einn, þá erum við öflug liðsheild sem enginn getur stöðvað,“ segir Hólmfríður.

TENGDAR FRÉTTIR:
Býður upp treyju til styrktar Kolfinnu Rán

Fyrri greinInkasso innheimtir fyrir Rangárþing ytra
Næsta greinSelfoss úr leik í bikarnum