Hólmfríður dettur út og Guðbrandur kemur inn

Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, hefur lýst því yfir að hann vonist til þess að fá að leiða lista Viðreisnar í kjördæminu áfram.

Endurtalning í Norðvesturkjördæmi hefur leitt í ljós misræmi í talningu atkvæða sem veldur því að röð uppbótarþingmanna í öllum kjördæmum breytist.

Þetta veldur því að Vinstri grænir missa Hólmfríði Árnadóttur út í Suðurkjördæmi en uppbótarþingmaður kjördæmisins er Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar. Vinstri grænir hafa þar með engann þingmann í Suðurkjördæmi og Viðreisn einn.

Fóru yfir verkferla í Suðurkjördæmi
Í framhaldi af endurtalningu í Norðvesturkjördæmi vöknuðu spurningar hvort einnig þyrfti að telja aftur í Suðurkjördæmi, því þar var ekki síður mjótt á munum. Aðeins munaði sjö atkvæðum á Miðflokki og Vinstri grænum, og Samfylkingin er sömuleiðis aðeins 70 atkvæðum frá.

„Í morgun höfðum við samband við landskjörstjórn og fengum upplýsingar þaðan að það er mjótt á munum. Við fórum þá yfir okkar verkferla frá A-Ö í flokkun og talningu atkvæða. Þegar við vorum búin að fara vel yfir tíu prósent atkvæða og ekkert misræmi komið í ljós, töldum við okkur vera komin á endastöð og að okkar vinnubrögð stæðust þá prófun. Svo við erum sátt við niðurstöðuna,“ segir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, í samtali við RÚV.

Þingmenn Suðurkjördæmis á komandi kjörtímabili eru því:

1. Guðrún Hafsteinsdóttir, D-lista
2. Sigurður Ingi Jóhannsson, B-lista
3. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, F-lista
4. Vilhjálmur Árnason, D-lista
5. Jóhann Friðrik Friðriksson, B-lista
6. Ásmundur Friðriksson, D-lista
7. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, B-lista
8. Oddný G. Harðardóttir, S-lista
9. Birgir Þórarinsson, M-lista
10. Guðbrandur Einarsson, C-lista (uppbótarþingmaður)

Fyrri greinLokatölur: Miðflokkurinn náði inn manni
Næsta greinVinstri grænir biðja um endurtalningu