Hönnun nýrrar aðveitu á lokastigi

Nú er verið að leggja lokahönd á hönnunargögn vegna útboðs nýrrar aðveitu fyrir kalt vatn í Flóahreppi með tengingu við vatnsveitu Árborgar.

Í maíblaði Áveitunnar kemur fram að fyrsti áfangi framkvæmdarinnar sé að reisa dæluhús við Árbæjarlindir undir Ingólfsfjalli. Rennsli frá lindinni verður aukið og hluti lagna breikkaður undir Árvegi að sveitarfélagamörkum við mjólkurbúið.

Einnig verður lögn frá sveitarfélagamörkum að Langholtsafleggjara breikkuð og sett bráðabirgðadælustöð í námunda við Langholtsafleggjara. Notast verður við núverandi lagnir meðfram Suðurlandsvegi fyrsta árið en dælustöð reist við Þingborg. Ný lögn verður lögð frá Neistastöðum í suður að Ruddakróki og dælustöð verður sett í nágrenni linda við Neistastaði.

Verkið mun ekki klárast á þessu ári en áætluð verklok fyrsta áfanga eru síðsumars. Á næsta ári er svo stefnt að því að bora nýja vinnsluholu við Árbæjarlindir og breikka og endurnýja lagnir víðar í dreifikerfinu.

Fyrri grein„Heitum skattgreiðendum því að gera okkar besta“
Næsta greinDrunur og skjálftar við Gígjökul