Á sjöunda tímanum í gærkvöldi barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um hópslagsmál við Ölfusárbrú á Selfossi. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að málsaðilar séu allir undir lögaldri og sumir undir sakhæfisaldri.
Vitni að slagsmálunum hafa lýst því á íbúasíðu Selfoss að nokkur hópur hafi safnast saman við og undir brúnni og hafi bæði gerendur og áhorfendur hulið andlit sín með grímum og hettum. Slagsmálin hafi leyst upp þegar vitni reyndu að stoppa þau og lögreglan hafi skömmu síðar komið á staðinn.
Málið er í rannsókn í samráði við barnaverndaryfirvöld og aðrar þær stofnanir sem koma að málefnum barna.