Hópslysaáætlun virkjuð vegna hruns í íshelli

Þjóðvegur 1 á Breiðamerkursandi. Öræfajökull í baksýn. Ljósmynd © Mats Wibe Lund

Viðbragðsaðilar á Suðurlandi fengu útkall skömmu fyrir klukkan þrjú í dag um hrun í íshelli í Breiðamerkurjökli. Hóp­slysa­áætl­un al­manna­varna­ hef­ur verið virkjuð vegna slyss­ins.

Þar var 25 manna hópur í skipulagðri ferð um svæðið með fararstjórn. Fjórir aðilar urðu fyrir ísfargi, nú þegar hefur tveimur aðilum verið náð undan ísnum og eru þeir alvarlega slasaðir. Enn er verið að leita að tveimur aðilum sem eru fastir í íshellinum.

Aðrir sem voru í hópnum eru óslasaðir og verið að koma þeim í fjöldahjálparstöð. Unnið er að björgunarstörfum á vettvangi. Ekki er vitað um frekara ástand á fólki á þessari stundu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Fyrri greinAtli ráðinn aðstoðarþjálfari Selfoss
Næsta greinHákon Þór jafnaði eigið Íslandsmet