Hópslysaáætlun hefur verið virkjuð í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi vegna umferðarslyss í Mýrdalnum, þar sem rúta með átta manns innanborðs valt á þjóðvegi 1.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið klukkan 10:32. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu eru átta manns um borð í rútunni og einhverjir slasaðir.
Viðbragðsaðilar eru á leiðinni á vettvang en aðgerðarstjórn fyrir Suðurland og samhæfingarstöð í Skógarhlíð hafa verið virkjaðar.
Uppfært kl. 11:26: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi var um smárútu að ræða. Þrír eru slasaðir en enginn alvarlega. Allir úr bílnum verða fluttir undir læknishendur til öryggis. Aðstæður á vettvangi slyssins eru erfiðar, þar er hvassviðri og varla stætt. Gul veðurviðvörun er í gildi á svæðinu.
Uppfært kl. 11:34: Allir þeir sem voru í rútunni hafa nú verið fluttir af vettvangi og í skjól á Hotel Volcano í Ketilsstaðaskóla.
Uppfært kl. 11:57: Suðurlandsvegi, milli Selfoss og Víkur hefur nú verið lokað tímabundið vegna þess hversu vont veður er á svæðinu.