Hópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss í Öræfum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hópslysaáætlun á rauðu neyðarstigi í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi hefur verið virkjuð vegna rútuslyss við Hof í Öræfum.

Neyðarlínunni barst tilkynning um slysið kl. 15:05. Rútan valt á hliðina út fyrir veg og samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru 32 farþegar um borð í rútunni auk ökumanns.

UPPFÆRT KL. 15:45: Ríkislögreglustjóri hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi strax verið kölluð út og samhæfingarstöð í Skógarhlíð í Reykjavík virkjuð. Umfang og stig meiðsla fólks er ekki ljóst en eitthvað er um beinbrot og skrámur.

UPPFÆRT KL. 15:59: Fyrstu viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang og er aðhlynning slasaðra hafin. Suðurlandsvegur er lokaður við slysstað og ekki liggur fyrir hve lengi lokunin varir.

UPPFÆRT KL. 16:00: Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Fleiri viðbragðsaðilar eru á leið á vettvang og eru vegfarendur beðnir um að gefa þeim á leið svigrúm til þess að komast á staðinn.

Fyrri greinFyrsta íbúðin í Ölduhverfinu afhent
Næsta greinFlogið með slasaða á þrjú sjúkrahús