Umferðarslys varð á Suðurlandsvegi við Hellu nú fyrir stundu, á gatnamótum við Gaddstaðaflatir, þar sem tvær rútur skullu saman.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hefur hópslysaáætlun verið virkjuð, en viðbragðsaðilar eru að vinna á vettvangi. Slys á fólki virðist vera minniháttar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út þegar tilkynning um slysið barst en þyrlan var síðan afturkölluð þegar ljóst var að slys á fólki voru lítil.
UPPFÆRT KL. 10:15:
Fimm aðilar voru fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi með minniháttar áverka eftir óhappið, tæplega 50 manns voru í bílunum tveimur, en um erlenda ferðamenn var að ræða í báðum bílum.
Suðurlandsvegur er lokaður á meðan unnið er á vettvangi en umferð stýrt um hjáleið í gegnum Hellu.
Tildrög slyssins eru í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurlandi.