Hópslysaáætlun virkjuð vegna slyss við Skaftafell

Um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Smárúta með sjö manns innanborðs fór útaf og valt á Þjóðvegi 1, skammt sunnan við Skaftafell í kvöld. Slysið var tilkynnt til Neyðarlínunnar um kl. 18:45 í kvöld og þá þegar var hópslysaáætlun fyrir Suðurland virkjuð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi eru allir þeir sem í bílnum eru með meðvitund, en einhverjir þeirra eru beinbrotnir.

Viðbragðsaðilar eru á leið á vettvang auk þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugvél frá Akureyri. Önnur þyrla er í startholunum. Búið er að afturkalla björgunarsveitir í Árnes- og Rangárvallasýslu enda talið að bjargir á svæðinu auk sjúkraflutninga sem er á leið á vettvang ráði vel við verkefnið.

Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á Selfossi og Samhæfingarstöð hefur verið virkjuð í Skógahlíð í Reykjavík.

Opið er fyrir umferð um vettvang slyssins en búast má við að tafir verði og jafnvel tímabundnar lokanir fram eftir kvöldi.

UPPFÆRT KL. 20:05

Fyrri greinBrynjólfur bjargaði stigi fyrir Ægi
Næsta greinSigurmark á lokamínútunni