Hópsmit er komið upp í Ölfusi en fjórir einstaklingar á sama vinnustaðnum eru smitaðir.
RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra, að enn sé verið að vinna að því að ná utan um málið.
„Vonir standa til þess að nægilega snemma hafi þetta greinst þannig að böndum hafi verið komið á þetta en það skýrist eftir því sem líður á daginn,“ segir Elliði.
Hert verður á reglum um persónulegar sóttvarnir í Ölfusi, heimsóknir takmarkaðar í stofnanir hjá bænum og fólk hvatt til þess að vinna heima ef það hefur tök á því.
UPPFÆRT: Ekki var rétt í frétt RÚV í morgun að grunnskólabarn hefði greinst smitað. Ólína Þorleifsdóttir, skólastjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að hið rétta væri að grunur væri um smit og fer viðkomandi í sýnatöku í dag.