Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Selfyssing á fimmtugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í gær fyrir húsbrot og eignaspjöll.
Í desember árið 2011 var maðurinn í samkvæmi í íbúð á Selfossi. Hann braust síðan inn í íbúð á efri hæð í sama húsi aðfaranótt sunnudags og hafðist þar við í heimildarleysi, lagðist til svefns í sófa og horfði á sjónvarpið, allt þar til lögregla kom að og handtók hann skömmu fyrir miðnætti þennan sama sunnudag.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust og dæmdi Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, hann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Hinn ákærði á þónokkurn brotaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 1989. Þrátt fyrir það þótti, að virtum atvikum málsins, rétt að skilorðsbinda refsingu mannsins til þriggja ára.