Svo virðist sem sveitarfélög á Suðurlandi standi nú frammi fyrir því að ákveða hvort þau muni gera þjónustusamning hvert í sínu lagi við Sorpu BS í Reykjavík um urðun sorps eða að Sorpstöð Suðurlands gangi til sameiningar við Sorpu og sveitarfélögin á Suðurlandi eignist þannig hlut í Sorpu.
Þriðji kosturinn, að finna sér sameiginlegan urðunarstað virðist fjarlægari, eftir nokkurra ára leit að slíkum stað. Núverandi samningur við Sorpu rennur úr gildi um áramót.
Gunnar Egilsson, formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, segir nánast að fullu reynt með að finna urðunarstað á svæðinu, en væri slíkt fyrir hendi væri sorpkostnaður miklu minni fyrir sveitarfélögin. Hjá Sorpu í Reykjavík sé verðið nú 17,58 krónur á kílóið, en hafi verið nær 4-5 krónum þegar sorp var urðað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi.
Heimildir Sunnlenska herma að svo gæti farið að sorp yrði urðað í meira mæli á Skógasandi, austast í Rangárvallasýslu. Þar er nú sorp urðað í litlum mæli á landsvæði sem er í eigu héraðsnefnda Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu