Kornskurður á Suðurlandi er í flestum tilfellum nokkrum vikum seinni á ferðinni en undanfarin ár.
Að sögn Sigmars Aðalsteinssonar í Jaðarkoti, sem býður upp á kornskurð, er allt mikið seinna á ferðinni. Undanfarin ár hefur hann verið byrjaður á kornskurði í kringum 20. ágúst. Sigmar segist skera korn á um 200 hekturum lands fyrir um 20 aðila.
Kornskurður hófst undir Eyjafjöllum um síðustu mánaðarmót og virðist uppskera lakari en í meðalári að því er kemur fram á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands. Kornið hafi hins vegar verið ágætlega þroskað, þó ekkert í líkingu við það sem var í fyrra. Kuldar um miðjan maí og þurrkur um sumarið hefur dregið úr vexti og þroska kornsins. Þá hafa gæsir gert kornbændum skráveifu undanfarið.