HorseDay hlýtur 100 milljóna króna hlutafjáraukningu

Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay. Ljósmynd/HorseDay

Sunnlenska sprotafyrirtækið HorseDay ehf. hlaut nýverið 100 milljóna króna hlutafjáraukningu, sem leidd var af Nýsköpunarsjóði með þátttöku nokkurra einkafjárfesta.

HorseDay mun í framhaldinu setja aukinn kraft í vöruþróun og markaðssetningu á smáforritinu HorseDay. Fyrirtækið ætlar sér í fyrstu að ná til íslenska hestaheimsins hérlendis og erlendis og í framhaldinu verður þróun smáforritsins fyrir önnur hestakyn skoðuð.

Forritið býður upp á fjölbreytta möguleika sem auðvelda fólki utanumhald og markmiðssetningu um þjálfun, umhirðu og allt sem hestahaldið varðar. Í dag starfa sex starfsmenn hjá HorseDay ehf. en það er fyrirliggjandi að teymið muni stækka á næstunni.

Þýðingarmikil hlutafjáraukning
„Þessi hlutafjáraukning er mjög þýðingarmikil fyrir okkur á þessu stigi. Hún gerir okkur kleift að setja enn meiri orku í vöruþróun og markaðssetningu. Við erum mjög stolt af því hvert við erum komin og erum spennt að halda áfram að sérhanna hugbúnað fyrir hestafólk,“ segir Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay, í samtali við sunnlenska.is

HorseDay var stofnað árið 2020 af Oddi Ólafssyni, Mörtu Rut Ólafsdóttir og Ólafi H. Einarssyni en þau hafa reynslu af þróun og uppbyggingu hugbúnaðar og eru hestafólk, með tengingar við hestamennsku á breiðum grunni. HorseDay hefur hlotið styrki úr Tækniþróunarsjóði Rannís, Uppbyggingarsjóði Suðurlands og frá Stofnverndarsjóði íslenska hestsins.

Starfsfólk HorseDay (F.v.) Haraldur Bjarni Davíðsson, forritari, Ólafur H. Einarsson, sölu- og markaðsstjóri, Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Caya Aline Edenhofner, markaðs- og sölumál og Hugi Hólm, forritari. Ljósmynd/HorseDay

Eru rétt að byrja
Oddur segir að þau hafi alveg eins átt von á því að fyrirtækið myndi stækka jafn hratt og raun ber vitni. „Það var alltaf stefnan að taka þetta alla leið. Við höfum mikla trú á verkefninu og leituðum leiða til að afla þekkingar um nýsköpunarumhverfið, hvaða skref er best að taka á hverjum tíma og fá til liðs við okkur rétta fólkið til að komast á þennan stað sem við erum á í dag. Í dag nota um 800 notendur lausnina vikulega en við erum rétt að byrja. Við erum nýbúin að setja í loftið greiðandi áskriftaleið og fyrstu viðskiptavinirnir duttu inn um síðustu helgi.“

Miðað við viðtökurnar sem HorseDay hefur fengið þá var augljóslega mikil þörf fyrir smáforrit eins og þetta. „Við erum mjög þakklát fyrir viðtökurnar hingað til og þá jákvæðni sem er í okkar garð. Okkar tilfinning er að hestafólk hefur verið að kalla eftir svona lausn í þónokkurn tíma, þannig að við vonuðumst auðvitað fyrir því að viðtökurnar yrðu góðar.“

„Það er alltaf óvissa sem fylgir því að búa til eitthvað nýtt, eitthvað sem fólk þekkir ekki og er ekki vant. Við eigum ennþá eftir að sannfæra hestafólk að HorseDay sé lausnin sem það notast við í öllu hestahaldinu á komandi árum. Það er verkefni næstu mánaða, að halda áfram að sannfæra fólk um að taka þátt í þessari vegferð.“

Skjáskot úr HorseDay.

Velgengni er langhlaup en ekki spretthlaup
En hvaða ráð hefur Oddur fyrir fólk sem er með hugmynd í kollinum að smáforriti og langar að koma henni í framkvæmd? „Vera óhrædd við að láta vaða. Það versta sem gerist er að hlutirnir ganga ekki upp. Það er mjög margt sem ég hef lært á þessari vegferð og það var það sem ég var hvað spenntastur fyrir. Hlutirnir taka alltaf lengri tíma en maður býst við eða vonast til. Að þróa og búa til eitthvað svona frá grunni er langhlaup en ekki spretthlaup, úthaldið skiptir öllu máli. Núna eru spennandi tímar hjá okkur í HorseDay,“ segir Oddur glaður að lokum.

Skjáskot úr HorseDay.
Fyrri greinVarnarsigur gegn Gróttu á Nesinu
Næsta greinSunnlenskar stelpur í körfubolta