Höskuldur Sverrir Friðriksson hefur verið ráðinn í stöðu varðstjóra sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. maí næstkomandi.
Höskuldur var valinn úr hópi þrettán umsækjenda og uppfyllir mjög vel menntunar- og hæfniskröfur sem settar voru fram fyrir starfið, að því er segir í frétt á heimasíðu HSu.
Höskuldur er fæddur árið 1965 en hann lauk námi sem bráðatæknir frá Broward Community College árið 1990, auk þess lauk hann námi í Aeromedical Transport frá sama háskóla 1989. Hann hefur einnig lokið námi lækningum í óbyggðum, á afskekktum svæðum við erfiðar aðstæður með lítinn búnað og sjúkraflutning gjörgæslusjúklinga.
Höskuldur hefur hlotið leyfi landlæknis til þess að kalla sig sjúkraflutningamann og bráðatækni. Til viðbótar hefur Höskuldur öðlast kennsluréttindi í Wilderness Medicine fögum, BTLS, ACLS, PALS, AMLS og hann hefur sótt sér sí- og endurmenntun á sviði bráðameðferða.
Hann hefur til viðbótar sótt sér menntun á sviði sjúkraflutninga barna og sjúkraflutninga hjartveikra. Hann hefur réttindi til rústabjörgunar og köfunar og hefur yfirgripsmikla reynslu sem kennari á sviði neyðarflutninga og endurlífgunar.
Höskuldur hefur verið kennari Sjúkraflutningaskólans í grunnnámi og neyðarflutninganámi og verið leiðbeinandi á endurlífgunarnámskeiðum fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Þá hefur hann tekið að sér ýmiskonar verkefni þar sem krafist er hæfileika til stjórnunar, skipulags verkferla og vinnu undir miklu álagi.
TENGDAR FRÉTTIR:
Styrmir ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga