Í dag veitti Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, tuttugu og einum veitingastað viðurkenninguna „Icelandic Lamb Award of Excellence“.
Viðurkenningu hlutu veitinga- og gististaðir fyrir framúrskarandi matreiðslu á íslensku lambakjöti og eftirtektarverð störf við kynningu á íslensku lambakjöti til ferðamanna.
Hótel Anna á Moldnúpi undir Eyjafjöllum var eini veitingastaðurinn á Suðurlandi sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni.
Þetta er í annað sinn sem viðurkenningar eru veittar samstarfaðilum Icelandic Lamb á sviði veitinga- og gististaða. Dómnefnd skipuð þeim Sigurbjörgu Jónasdóttur útvarpskonu hjá RÚV, Dominique Plédel Jónsson hjá SlowFood Reykjavík og Hafliða Halldórssyni verkefnastjóra hjá Icelandic Lamb valdi staðina sem hlutu viðurkenningar að þessu sinni.
Yfir 90 íslenskir veitingastaðir eru samstarfsaðilar sauðfjárbænda í gegnum verkefnið Icelandic Lamb sem ætlað er að undirstrika sérstöðu íslenskra sauðfjárafurða með tilvísun til uppruna, hreinleika og gæða. Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vönum og sala á lambakjöti aukist verulega hjá veitinga- og gististöðum sem taka þátt í verkefninu.