Hótel Geirland er bær mánaðarins

Hótel Geirland er bær mánaðarins innan vébanda Ferðaþjónustu bænda. Val á bæ mánaðarins byggist á umsögnum gesta og mati starfsfólks skrifstofu Ferðaþjónustu bænda.

Hótel Geirland er vinalegt sveitahótel með áherslu á veitingar beint frá bænum, staðsett í einstakri náttúrufegurð skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Gist­ing er í 40 her­bergjum með baði og í svefnpokaplássi.

Samkvæmt viðskiptavinum og starfsfólki Ferðaþjónustu bænda leggja gestgjafarnir þau Erla Ívarsdóttir og Gísli Kjartansson og allt starfsfólk Hótel Geirlands mikinn metnað í að gera heimsókn gesta sinna sem þægilegasta og eftirminnilegasta. Rúmgóð og snyrtileg aðstaðan, persónuleg þjónustan, metnaðurinn í matargerðinni og möguleikarnir til afþreyingar úti í náttúrunni eru til fyrirmyndar að mati fyrrgreindra.

Þegar hjónin Erla og Gísli festu kaup á bænum Geirlandi á Síðu árið 1984 var ferðaþjónusta langt frá huga þeirra. Erla útskýrir hvernig reksturinn byrjaði frekar óvænt: „Sauðfjárkvótinn var tekinn af jörðinni stuttu eftir kaupin, sem má segja að hafi kippt svolítið undan okkur fótunum. Árið 1987 ákváðum við að gera upp fjögur herbergi og leigja þau út til ferðamanna sem aukabúgrein, en í þá daga voru þeir ekki margir og dvöldu hér rétt yfir hásumarið. Í dag eru herbergin orðin 40 og opið allt árið. Við erum í þessu af lífi og sál og njótum þess virkilega að sinna vel okkar gestum, meira að segja á jólunum. Þetta er afskaplega skemmtileg og gefandi starfsemi.“

Veitingahúsið á Hótel Geirlandi leggur metnað sinn í að bjóða upp á mat beint frá bænum og úr héraði. Af vinsælum réttum á matseðlinum má nefna tvíreykta „Geirlands hangikjötið“, klaustursbleikjuna og síðast en ekki síst skyrtertuna hennar Erlu sem er orðin landsfræg en hún er fyrirmynd skyrtertu veitingastaðarins Hamborgarafabrikkunnar í Reykjavík: „Fólk vill stundum leggja mikið á sig til að fá að bragða á upprunalegu tertunni. Eitt sinn þegar skíra átti langömmubarn mitt og ég var komin í sparifötin kom danskur maður og íslensk kona hans á veitingahúsið og lá þeim mikið á. Þá höfðu þau séð myndband af mér að búa til tertuna í auglýsingu frá Hamborgarafabrikkunni um borð í flugvél og þarna voru þau mætt snemma morguns til að hitta mig og fá skyrtertu en þau þekktu mig í sjón úr auglýsingunni!“

Erla, sem var einnig fyrst íslenskra kvenna til að útskrifast sem kokkur bætir við: „Ég byrjaði ung í matreiðslunni og hef starfað óslitið við eldamennsku síðan. Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá gleðina sem óvænt en vel útfærð séríslensk matarupplifun getur veitt gestum. Tvíreykta hangikjötið settum við til dæmis með hálfum huga á matseðilinn í fyrra en svo urðu gestirnir yfir sig hrifnir og við höfðum varla undan að taka við pöntunum á þeim rétti í kjölfarið enda er hann nú fastur liður á matseðlinum.“

Hótel Geirland er einkar vel staðsett við rætur Vatnajökulsþjóðgarðs og nálægt mörgum af helstu náttúruperlum suðausturlands. Meðal áhugaverðra staða í nágrenninu má nefna Systrastapa, Systravatn, Landsbrotshóla, Fjarðarárgljúfur og Dverghamra auk fjölda gönguleiða á svæðinu. Allt árið um kring er boðið upp á dagsferðir með leiðsögn frá hótelinu til fjölmargra stórbrotinna staða m.a. í Laka, Eldgjá, Landmannalaugar, Langasjó og Skaftafell, bæði skipulagðar ferðir og ferðir sniðnar að þörfum gesta.

http://www.sveit.is

Fyrri greinNokkur innbrot og þjófnaðarmál
Næsta greinÞrek og tár á Selfossi