Lögreglan og slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu voru kölluð að Hótel Hellu um kl. 23 í kvöld vegna lítilsháttar bruna.
Hótelið var rýmt samkvæmt áætlun og fengu gestir, sem voru um 90 talsins, inni í íþróttahúsinu á Hellu sem er í nágrenninu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi virtust upptök eldsins vera í viftu á baðherbergi á neðri hæð hótelsins.
Búið var að slökkva eldinn er slökkvilið kom á staðinn og er unnið að reykræstingu en töluverður reykur myndaðist við brunann. Engan sakaði.
Rýming hótelsins gekk vel og er búið að fá gistingu fyrir alla gestina. Lögreglan segir að gestirnir hafi verið afar rólegir, en þeim var komið fyrir á hótelum í grennd og er verið að aðstoða þá við að flytja sig á milli þar sem þónokkur reykur varð í húsinu.