Hótel Örk Hveragerði hefur hlotið alþjóðleg verðlaun frá World Golf Awards en hótelið sigraði í flokknum Besta golfhótel Íslands 2014.
„Við hjá Hótel Örk erum stolt af þessum verðlaunum enda höfum við í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að bjóða kylfinga velkomna á hótelið og æfa sig á níu holu golfvellinum við hótelið áður en haldið er á þá fjölmörgu glæsilegu golfvelli sem eru í nágrenni Hótel Arkar á Suðurlandi,“ segir Geir Gígja, sölu- og markaðsstjóri Hótel Arkar.
World Golf Awards voru nú veitt í fyrsta skipti en World Golf Awards eru hluti af World Travel Awards sem hafa verið veitt í 21 ár. Ferlið er þannig að fyrst eru valin nokkur fyrirtæki eða golfvellir í hverjum flokki í hverju landi. Því næst kjósa fagmenn í golfheiminum og ferðaþjónustu og aðrir neytendur á vefsíðu samtakanna.
Metfjöldi atkvæða barst í kosningunum frá leiðandi fagmönnum ásamt neytendum í yfir eitthundrað löndum. Hótel Örk var einnig tilnefnt í flokknum Besta golfhótel Evrópu.
Verðlaunaafhendingin fór fram á hinu glæsilega Hótel Conrad Algerve í Portúgal þar sem mörg þekkt nöfn úr golf heiminum voru verðlaunuð. Þar má helst nefna Peter Alliss sem fékk sérstök heiðursverðlaun fyrir þjónustu við golfheiminn ásamt Paul McGinley, fyrirliða Evrópu í Ryder Cup, sem var útnefndur Golfpersóna ársins.