Hótel Skógar kaupa Árhús

Árhús á Hellu.

Eigendur Hótel Skóga hafa keypt eignir og rekstur Árhúsa á Hellu og hófu rekstur þar um miðjan júní sl.

Hótel Skógar ehf eru að stærstum hluta í eigu Elíasar Rúnars Kristjánssonar, hótelstjóra og Arnars Freys Ólafssonar. Þeir keyptu hótelið í fyrra en Elías Rúnar starfaði þar áður sem hótelstjóri.

Í kaupunum felst rekstur á veitingastað, smáhýsaleigu og tjaldsvæði. Þeir félagar segja það henta með starfseminni á Skógum, um sé að ræða nokkuð líkar rekstrareiningar, það er veitingasala og gisting.

Segja þeir tækifærið að kaupa hafa komið mjög snöggt upp á og þeir hafi gripið það. Þeir horfa til ákveðinna samlegðaráhrifa, aðallega í innkaupum, sérþekkingu og markaðsstarfi en einnig lítillega í starfsmannahaldi.

Fyrri grein„Fólk lagði ennþá meira á sig“
Næsta greinGagnrýna frestun á stækkun friðlands