„Þetta var hræðileg aðkoma, hópur af skólakrökkum úr Vallaskóla og kennarar voru á mánudagsmorgun að gróðursetja í skóginum og fóru svo upp að hellinum og aðkoman var ekki falleg þar, eldglæður í símaskrám og trjávið, sem var búið að dreifa um allt, smokkar, glerbrot og nálar út um allt, það hafa greinilega einhverjir verið þarna um helgina að athafna sig.“
Þetta segir Marta María Jónsdóttir, umsjónarmaður Umhverfis- og framkvæmda hjá Sveitarfélaginu, Árborg þegar hún lýsir ástandinu í Stóra helli í Helliskógi á Selfossi á mánudagsmorgun. Málið hefur verið kært í lögreglu.
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umgengnin í hellinum er slæm en hún hefur aldrei verið eins rosaleg eins og núna. Það verður að brýna fyrir fólki að ganga vel um hellinn, skilja ekki eftir sig neitt rusl og fara frá hellinum og skóginum þannig að sómi sé af,“ bætti Marta María við.
Undir orð hennar tekur Ólafur H. Guðmundsson, umsjónarmaður Hellisskógar, sem segir umgengnina oft vera slæma þótt langflestir sem um skóginn fara séu til fyrirmyndar.