Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag fertuga konu á Selfossi í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni og lögreglulögum.
Brotin áttu sér stað í júní í fyrra. Konan neitaði þá að hlýða fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa íbúð í fjölbýlishúsi á Selfossi. Hún var því handtekin en í kjölfar handtökunnar veittist konan að lögreglumanni og hrækti í andlit hans. Þegar hún var komin inn í lögreglubíl sparkaði hún í andlit annars lögreglumanns með þeim afleiðingum að hann hlaut roða og bólgu á vinstra kinnbeini neðan við auga.
Konan játaði skýlaust brot sín við þingfestingu málsins. Hún hefur fimm sinnum áður sætt refsingu, þar af þrisvar fyrir hegningarlagabrot. Hæfileg refsing þótti því fangelsi í sex mánuði og ekki var tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.