Frá áramótum hefur lögreglan á Hvolsvelli kært rúmlega fjögurhundruð ökumenn fyrir umferðarlagabrot.
Flestir hafa verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, en það er vandamál sem lögreglumenn í umdæminu þekkja of vel. Bæði hefur verið að ræða um erlenda ferðamenn sem og fólk sem búsett er hér á landi.
Á sama tíma í fyrra hafði lögreglan á Hvolsvelli kært 169 ökumenn fyrir umferðarlagabrot.
Lögreglan segist finna fyrir aukinni umferð í umdæminu, sem sé mjög gott þar sem margt sé að sjá og skoða á þessum slóðum. „Við viljum þó hvetja fólk til að staldra við og skoða í rólegheitum allt það sem sýslurnar tvær hafa upp á að bjóða,“ segir lögreglan í færslu á Facebooksíðu sinni.