Hraðatakmarkanir við þjóðgarðinn

Svokölluð þéttbýlishlið hafa verið sett upp við tvo innganga í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Tilgangurinn er að ná niður hraðanum áður en komið er inn í þjóðgarðinn en þar er hámarkshraðinn 50 km/klst.

Vegagerðin segir að spurningar hafi vaknað um þessa framkvæmd vegna þess að þau mistök áttu sér stað að umferðareyja var sett upp áður en yfirborðsmerkingar voru komnar á veginn. Að minnsta kosti hefði þetta þurft að gerast samtímis. Yfirborðsmerkingar voru að mestu málaðar fyrir nokkru síðan en lokið verður við þær í dag með því m.a. að hylja heila kantlínu. Svæðið verður merkt sérstaklega þar til framkvæmdum er að fullu lokið.

Þéttbýlishlið er að finna víða á landinu, þar á meðal í nágrenni þjóðgarðins til dæmis við Laugarvatn og Reykholt. Þau eru sett upp þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýli og er það gert í umferðaröryggisskyni, það er að segja til þess að ná hraðanum niður. Sú er líka ástæðan með þjóðgarðinn, þar sem innan hans er 50 km/klst hámarkshraði. Þannig er hraði lækkaður úr 90 km/klst í 70 km/klst nokkru áður en komið er að þéttbýlishliði og við hliðið er hraðinn síðan lækkaður í 50 km/klst.

Hliðin auðvelda vegfarendum að átta sig á því að hámarkshraðinn er að breytast og nauðsynlegt er að hægja ferðina. Þess vegna er sveigjan framhjá eyjunni á leið inn á svæði með lægri hámarkshraða en akbrautin bein þegar menn geta aukið hraðann út úr þéttbýlinu, eða þjóðgarðinum í þessu tilviki.

Fyrri greinUmferð eykst á Lyngdalsheiði
Næsta greinDregur úr veiði í Veiðivötnum