Hraðakstur áberandi í dagbók lögreglu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frá því síðastliðinn föstudag hefur lögreglan á Suðurlandi haft í ýmsu að snúast, þá sérstaklega hvað varðar umferðina. Sem fyrr er hraðakstur fyrirferðarmikill í dagbók lögreglunnar en 33 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á þessu tímabili.

Sá sem hraðast ók var á 144 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Árnesþingi.

Sex umferðaróhöpp voru skráð og í þremur þeirra voru minniháttar meiðsli á fólki.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einn að auki grunaður um ölvunarakstur. Þá voru sex ökumenn stöðvaðir, án tilskilinna ökuréttinda og þrír voru kærðir fyrir að hafa ekki ljósabúnað í lagi.

Umferðareftirlit embættisins kærði tvo ökumenn atvinnutækja fyrir ranga notkun ökurita. Að auki voru ökumenn kærðir fyrir brot á reglugerð um stærð og þyngd ökutækja og fyrir brot á hvíldartíma við akstur.

Fyrri greinByggjum sterkara samfélag á réttlæti
Næsta greinLífrænt er vænt og grænt