Frá því á þriðjudaginn í síðustu viku hefur lögreglan á Suðurlandi kært 55 ökumenn fyrir hraðakstur.
Það sem af er ári hafa 1.461 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstursbrot í umdæminu. Á sama tíma í fyrra höfðu 2.635 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að líklega sé munurinn fólginn í fækkun erlendra ferðamanna í umferðinni. Talan í ár er svipuð og talan árin 2015-2017 en lögreglan stórjók einnig umferðareftirlit um allt Suðurland árið 2019 samhliða aukinni umferð.
Þrír voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur síðustu sex daga og aðrir tveir voru grunaðir um að aka undir áhrifum ávana og fíkniefna. Báðir voru þeir réttindalausir, annar hafði verið sviptur en hinn aldrei öðlast ökuréttindi. Samtals voru sex ökumenn stöðvaðir vegna aksturs án ökuréttinda síðustu sex daga.