Hrafnslaupur á óvenjulegum stað

Hrafnapar stendur þessa dagana í ströngu við að smíða laup ofan á skilti á framhlið verslunar BYKO á Selfossi.

Það er líklega ekki nálægðin við timbursöluna sem freistar hrafnanna við val á hreiðurstæðinu en laupurinn er haganlega smíðaður úr trjágreinum, flugeldaprikum og fleiru. Hrafninn er ófeiminn við félagsskap mannsins og á það til að verpa á stöðum sem þessum. Hrafnar hafa t.d. gert laupa á nokkrum húsum á Stokkseyri.

Tæp vika er síðan hrafnarnir hófu smíðina og er henni að ljúka núna. Hrafninn verpir fjórum til sex eggjum í laupinn og koma ungarnir úr eggjunum eftir u.þ.b. þrjár vikur. Þeir yfirgefa hreiðrið svo u.þ.b. fimm vikna gamlir.

Pálmi Jóhannsson, verslunarstjóri í BYKO, segir að hrafninn hafi vakið mikla athygli og margir hafi gert sér ferð í verslunina til þess að skoða laupinn. „Það er bara gaman að þessu. Hann stendur þarna í stórframkvæmdum og fólk hefur gaman af því að fylgjast með honum,“ sagði Pálmi í samtali við sunnlenska.is.

hrafnslaupur2BYKO2012gk_973155602.jpg

hrafnslaupurBYKO2012gk_261293672.jpg
sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSláttur hefst miklu fyrr en venjulega
Næsta greinÞórður Freyr ráðinn til AÞS