Betur fór en á horfðist á laugardag þegar ferðamaður féll í gegnum snjóþekju niður í djúpa gjá á Þingvöllum. Þar höfðu tvær ungar konur farið út af göngustíg skammt utan við Langastíg.
Konan féll ofan í mjóa djúpa gjá sem var hulin snjó sem gaf eftir. Hún hrapaði nokkra metra niður í sprunguna.
Skömmu síðar var tilkynnt um atvikið í þjónustumiðstöð og fóru landverðir á vettvang. Konan reyndist ekki slösuð en nauðsynlegt var að kalla eftir aðstoð björgunarsveita til að ná henni upp úr gjánni.
Á sömu stundu komu nokkrir félagar úr Hjálparsveit skáta í Garðabæ við í þjónustumiðstöðinni á leið úr æfingaferð innan við Þingvelli. Þeir fréttu af atvikinu og buðust til að aðstoða og náðu konunni fljótt úr sprungunni.
Lögreglumenn sem voru á Þingvöllum vegna Silfru komu einnig á vettvang. Konunni varð ekki meint af og landverðir buðu þeim stöllum upp á kakóbolla í starfsmannahúsi áður en þær héldu áfram för sinni.
Frá þessu er greint á Facebooksíðu þjóðgarðsins