Hraungos er líklega hafið í gígnum á Eyjafjallajökli. TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar fór frá Reykjavík með vísindamenn kl. 10:08 til að kanna gosstöðvarnar nánar með eftirlitsbúnaði vélarinnar.
Flugstjórn upplýsti kl. 9:18 um þyrlu á flugi við Eyjafjallajökul sem tilkynnti um hraungos, miklar sprengingar og hraunslettur úr eldstöðvunum. Gosmökkurinn væri í 8 til 10.000 fetum en bólstraði upp í 15 til 17.000 fet inn á milli.
Er gosmökkurinn að mestu hvítur, en inn á milli mjög dökkir bólstrar. Á heimasíðu Veðurstofunnar segir að kl. 8:50 fór mökkurinn í 4 km hæð. Lægri gosmökkur bendir til þess að vatn komist ekki lengur í gíginn og hraunflæði sé hafið. Líkur eru á góðu skyggni við gosstöðvarnar í dag.