Í september næstkomandi opnar nýr leikskóli í Þorlákshöfn sem mun bera nafnið Hraunheimar. Hraunheimar er fjögurra deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 6 ára.
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri og vinnur hún að því að byggja upp skapandi og styðjandi umhverfi fyrir börn og starfsfólk.
Hraunheimar verður heilsueflandi leikskóli sem leggur áherslu á læsi í víðu samhengi. Orðið læsi vísar ekki eingöngu til grunnfærni í lestri og ritun heldur til margþættrar hæfni einstaklings til að skilja, túlka og tjá sig á ýmsa vegu í mismunandi aðstæðum.
Útikennsla verður stór þáttur í starfinu og leggur leikskólastjóri mikla áherslu á að útbúa útisvæði sem býður upp á fjölbreytta möguleika til náms. Lóðin er unnin í góðu samstarfi við fagaðila sem hafa mikla þekkingu og reynslu á hönnun slíkra svæða.
Miðvikudaginn 26. febrúar kl. 17:00 mun Hrafnhildur Hlín vera með kynningu á nýja leikskólanum. Kynningin er opin fyrir alla og verður haldin í Versölum, Hafnarbergi 1 í Þorlákshöfn.
