Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum í dag að hætta við nýtt úboð á veiðirétti í Fossá og Rauðá.
Á fundi sveitarstjórnar í janúar var ákveðið að bjóða veiðina út að nýju þar sem gildandi samningur við Veiðifélagið Hreggnasa ehf væri fallinn úr gildi vegna vanskila á leigugjaldi.
Nokkrum dögum eftir þann fund gerði Hreggnasi að fullu skil á gjaldfallinni leigu og því lagði Kristófer Tómasson, sveitarstjóri, til á fundinum í dag að hætt verði við að auglýsa árnar og að áðurgerður samningur við Hreggnasa muni aftur gilda.
Hreggnasi bauð best í útboði í byrjun árs 2013, 8,5 milljónir króna fyrir fjögurra ára samning og var það sexfalt hærra verð en á útboðstímabilinu þar á undan. Sumarið 2013 veiddust rúmlega 170 laxar á tvær stangir á svæðinu.