Hreggnasi undrast afgreiðslu sveitarstjórnar

Forsvarsmenn Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. segjast ekki vera í vanskilum við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna veiðiréttar í Fossá og Rauðá í Þjórsárdal.

Sunnlenska.is greindi frá því í gær að samningur Hreggnasa við sveitarfélagið væri fallinn úr gildi vegna vanefnda. Að sögn Björgvins Skafta Björgvinssonar, oddvita, hefur félagið ekki staðið skil á greiðslum til sveitarfélagsins.

Í tilkynningu sem forsvarsmenn Hreggnasa sendu sunnlenska.is segir að félagið sé ekki í vanskilum og fullnaðargreiðsla vegna veiðiréttarins hafi þegar verið greidd.

„Fulltrúa sveitarstjórnar er fullkunnugt um ágreining leigutaka og leigusala. Ein ástæða hans er meint vanefnd leigusala á 13 gr. leigusamningsins er snýr að veiðivörslu á svæðinu. Leigusali hefur ekki tekið þátt í veiðivörslu líkt og kveðið er á um í samningi og hefur kostnaður fallið óskiptur á leigutaka,“ segir í tilkynningu Hreggnasa.

Forsvarsmenn Hreggnasa segja að fundargerð sveitarstjórnar sé ekki í neinu samræmi við þau samskipti sem þeir hafi átt við fulltrúa sveitarfélagsins, bókunin í fundargerðinni komi Hreggnasa verulega á óvart auk þess sem hún sé villandi.

„Það skal ítrekað að Hreggnasi ehf stendur að fullu í skilum við umræddan leigusala líkt og við alla aðra viðsemjendur félagsins. Jafnframt mun Hreggnasi ehf athuga þá leið að leita réttar síns vegna samningamála við umræddan leigusala,“ segir ennfremur í tilkynningu félagsins.

Fyrri greinÁrborg samdi við Súperbygg
Næsta greinVarað við hálku og krapa