Það er litið svo á í Menntaskólanum að Laugarvatni að til að efla einbeitingu fyrir próflestur, sé gott að reyna á líkamann, sleppa aðeins fram af sér beislinu og almennt bara henda um stund áhyggjum og kvíða út í hafsauga, ef slíkt er fyrir hendi á annað borð.
Eftir hádegið á þessum sólardegi á Laugarvatni var tækifærið gripið, einmitt með ofangreind markmið í huga, en þá fór fram hinn árlegi vatnsslagur.
Við þessar aðstæður kemur Pálmi, hinn eini sanni, akandi á slökkvibifreið, sneisafullri af vatni. Frá henni er lögð slanga, sem síðan greinist í tvær áttir. Þar sem greinarnar enda síðan, hefur verið komið fyrir plasttunnum, sem síðan fyllast af vatni þegar Pálmi skrúfar frá. Við aðra tunnuna eru nemendur fyrsta bekkjar (Kasarbúar) en við hina eru allir aðrir.
Þátttakendur hafa með sér ílát af ýmsu tagi, sem þeir fylla síðan ítrekað með vatni úr tunnunum og freista þess síðan að beita vatninu í orrustu um ekki neitt, með engum afleiðingum öðrum en blautum skrokkum og hreinum huga.