
Hreinsitækni ehf. hefur fest kaup á öllu hlutafé Stífluþjónustu Suðurlands ehf.
Í tilkynningu frá félögunum segir að Hreinsitækni sé leiðandi fyrirtæki á sviði sópunar og þvotta á gatnakerfum og gönguleiðum auk þess að vera öflugasta fyrirtæki landsins á sviði holræsahreinsunar og tengdrar þjónustu. Félagið var stofnað árið 1976 og hefur starfað óslitið síðan.
Stífluþjónusta Suðurlands hefur boðið upp á þjónustu við einstaklinga, fyrirtæki og sveitafélög á Suðurlandi og víðar, undanfarin 20 ár og skapað sér gott orð fyrir góða þjónustu.
Að sögn Björgvins Bjarnasonar forstjóra Hreinsitækni sér félagið kaupin á Stífluþjónustu Suðurlands sem gott tækifæri til að þjónusta viðskiptavini sína á svæðinu enn betur með því að samþætta starfsemi félaganna og byggja ofan á það góða starf og orðspor sem eigendur Stífluþjónustunnar hafa byggt upp á undanförnum árum og áratugum.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra verðbréfa var kaupanda til ráðgjafar í ferlinu og fyrirtækjaráðgjöf PricewaterhouseCoopers var ráðgjafi seljanda. Undirrituðu aðilar kaupsamning í húsakynnum Íslenskra Verðbréfa í hádeginu og hefur afhending þegar farið fram.